Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 11. maí 2010 21:02
Jóhann Ingi Jónsson
Beint: Stjarnan 4 – 0 Grindavík (Leik lokið)
Stjörnuvöllur
Stjörnuvöllur
Mynd: stjarnan.is/fotbolti
Ondo hefur hingað til verið iðinn við kolann gegn Garðbæingum
Ondo hefur hingað til verið iðinn við kolann gegn Garðbæingum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Auðun Helgason fékk rautt spjald að launum fyrir misheppnaða tæklingu eftir aðeins þrjár mínútur.
Auðun Helgason fékk rautt spjald að launum fyrir misheppnaða tæklingu eftir aðeins þrjár mínútur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Orri Björnsson hefur skorað tvívegis eftir 69 mínútna leik.
Halldór Orri Björnsson hefur skorað tvívegis eftir 69 mínútna leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan 4 – 0 Grindavík
1-0 Halldór Orri Björnsson ('3 - víti)
2-0 Halldór Orri Björnsson ('64)
3-0 Steinþór Freyr Þorsteinsson ('77)
4-0 Jóhann Laxdal ('84)

Rautt spjald: Auðun Helgason - '3
Gilles Mbang Ondo - '86

90. mín Leik er lokið hér í Garðabænum með öruggum 4-0 sigri heimamanna.

90. mín Stjörnumenn sækja kröftuglega nú undir lok leiksins.

90. mín Óli Baldur Bjarnason á skot framhjá marki Stjörnunnar en það er laust og skapar litla hættu.

88. mín Hafsteinn Rúnar Helgason kemur útaf og inn í stað hans skokkar inn á völlinn Hilmar Þór Hilmarsson.

86. mín Þá eru Grindvíkingar orðnir 9 á vellinum og útlitið heldur betur svart hjá þeim. Lenti hann aftur í klafsi við Tryggva og fékk Ondo annað gult spjald að launum og þar af rautt.

84. mín. MARK!!! Steinþór Freyr á frábæra sendingu inn fyrir vörn Grindavíkur og þangað er mættur Jóhann Laxdal sem sendir boltann í netið. Vel tímasett sending og vel klárað hjá Jóhanni. Tóku bræðurnir Jóhann og Daníel Laxdal hressandi fagn við tilefnið.

81. mín Sveinbjörn er fljótur að koma sér inn í leikinn og á skalla rétt yfir mark Stjörnunnar.

78. mín Scott Ramsay yfirgefur vellinn og inn á völlinn skottast Óli Baldur Bjarnason. Sveinbjörn Jónasson kemur þá inn fyrir Jósef Kristinn Jósefsson.

77. mín MARK!!! Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur bætt þriðja marki leiksins. Marko Valdimar Stefánsson átti skalla til baka en Steinþór var fljótur að bregðast við því og komst að boltanum og vippaði laglega yfir Óskar í markinu.

76. mín Atli Jóhannsson á skot rétt yfir markið beint úr aukaspurnu.

75. mín Marel Baldvinsson kemur útaf og inn kemur Þorvaldur Árnason. Áhorfendafjöldi hér á Stjörnuvelli er 780.

71. mín Baldvin Sturluson kemur útaf meiddur og inn kemur Bjarki Páll Eysteinsson.

64. mín. MARK!!! Halldór Orri Björnsson skorar í annað skiptið framhjá Óskari í markinu eftir að hafa fengið boltann inn fyrir vörnina. Afgreiddi hann boltann snyrtilega í hornið framhjá Óskari sem kom út úr markinu.

63. mín Gilles Daniel Ondo er dæmdur rangstæður en ljóst er að ekki mátti miklu muna að hann slyppi aleinn inn fyrir gegn Bjarna Þórði.

59. mín Hafsteinn Rúnar tekur Scott Ramsay niður og fær gula spjaldið fyrir vikið.

56. mín Meira jafnræði er með liðunum í síðari hálfleik. Ondo yngri sem kom inn á hálfleik virðist taka eldri bróður sinn til fyrirmyndar og spilar hraustlega. Tók hann Steinþór niður en slapp þó við gula spjaldið en fékk þó tiltal. Stjörnumenn eiga í kjölfarið tvö hálffæri en tekst ekki að nýta þau.

50. mín Eitthvað virðist Luka Kostic hafa stappað stálinu í sína menn í hálfleik og hafa þeir skapað sér tvö hættuleg færi hér í upphafi síðari hálfleiks. Ray Anthony Jónsson átti skot í varnarmann Stjörnunnar og framhjá og upp úr hornspyrnunni fékk Ondo eldri gott færi en skot hans fór naumlega framhjá.

46. mín Valgeir flautar leikinn á að nýju. Ein breyting er á liði Grindvíkinga en Alexander Magnússon fær að setjast á bekkinn og Loic Mband Ondo kemur inn á í hægri bakvörðinn.

45. mín Valgeir flautar til hálfleiks og geta Grindvíkingar þakkað fyrir að vera aðeins einu marki undir hér í hálfleik.

44. mín Steinþór Freyr Þorsteinsson hlýtur gult spjald að launum og þarf því að vara sig það sem eftir varir leiks.

43. mín Jóhann Helgason á fyrsta skot Grindvíkinga í leiknum en það er laust og vel framhjá markinu. Bjarni Þórður þarf því að spyrna boltanum frá marki áður en hann getur klárað viðtal sitt við fréttaritara RÚV.

39. mín Stjörnumenn virðast ætla að leggja allt í sölurnar hér í fyrri hálfleik og vilja setja annað mark fyrir hálfleik. Jóhann Laxdal á eitraða fyrirgjöf sem Marel missir naumlega af en Steinþór Freyr nær til boltans og skýtur rétt framhjá.

36. mín Góður sprettur Steinþórs upp miðjuna skapar vandræði í vörn Stjörnumanna, en hann sendir boltann út til vinstri á Atla Jóhannsson sem sendir stórhættulegan bolta fyrir markið en hvorki Marel Baldvins né Jóhann Laxdal ná til boltans í tæka tíð.

32. mín Fyrirgjöf af hægri kanti Stjörnunnar flýgur yfir Marel Baldvins sem er knúsaður vinalega af varnarmanni Grindvíkinga og getur því ekki náð til boltans. Aðdáendum Stjörnunnar lýst ekkert á vinalegheitin og vilja fá víti en Valgeir dómari hristir hausinn.

28. mín Leikurinn fer nú að mestu fram á vallarhelmingi Grindvíkinga sem virðast ekki hafa náð sér að fullu eftir brottrekstur Auðuns.
Heyrst hefur að Bjarni Jó hafi gefið fréttamönnum RÚV leyfi til þess að taka persónulegt viðtal við Bjarna Þórð markvörð Stjörnunnar næstu mínúturnar.

20. mín Ondo verður að teljast heppinn að fá að spila áfram en hann átt ihér ansi hressilega tæklingu á Tryggva Svein Bjarnason þar sem sólinn fór ansi hátt á loft. Hlaut hann hins vegar gult spjald að launum hjá Valgeiri Valgeirssyni, dómara leiksins.

15. mín Steinþór Freyr sleppur inn fyrir vörn Grindvíkinga en nær ekki að snúa boltanum framhjá Óskari í markinu.

13. mín Óskar Pétursson hefur nóg að gera og nú varði hann vel frá Marel Baldvinssyni sem tók boltann vel niður ú vítateignum og skaut góðu skoti að marki. Óskar varði hins vegar vel frá honum. Aðrir Grindvíkingar virðast enn ekki búnir að átta sig á því að leikurinn er byrjaður.

9. mín Langt innkast hjá Stjörnunni skapar usla í markteig Grindvíkinga en engum bláklæddum tekst að teygja sig í boltann og Grindvíkingar geta andað léttar, um stund að minnsta kosti.

4. mín Stjörnumenn ætla að hamra járnið á meðan það er enn heitt og sækja áfram. Bjargað er á marklínu Grindvíkinga og Stjörnumenn vilja fá dæmda hendi en það hefði verið harður dómur.

3. mín. MARK!! Leikar fara fjörlega af stað. Boltinn barst inn í teig þar sem Steinþór Freyr Þorsteinsson var felldur og víti dæmt. Auðun Helgason tæklaði hann og var vikið af velli. Halldór Orri Björnsson fór á punktinn og skoraði af öryggi. 1-0 og Grindvíkingar strax orðnir manni færri.

19.09 Liðin hafa komið sér fyrir í búningsklefum að hlusta á síðustu peppræðu þjálfaranna. Maður upphitunarinnar var Bjarni Þórður Halldórsson sem átti glæsilega markvörslu hér rétt áður en leikmenn gengu til búningsklefa.

19.04 Fólk er farið að mæta í stúkuna, þó aðallega Stjörnumegin. Óskað er eftir Stinningskalda, stuðningsmannaliði Grindvíkinga. Fólk heima hjá sér sem er að meta það hvort það eigi að mæta á fyrsta leik Pepsideildarinnar er hvatt til þess að rífa sig upp úr sófanum og þjóta (á löglegum hraða að sjálfsögðu) hingað niður í Garðabæ.

Hér er stemningin farin að magnast og má heyra Stjörnumenn syngja söngva vel fyrir leik. Þá er hér maður með blátt og hvítt yfirvaraskegg, og ef það er ekki eitthvað sem vert er að sjá játar undirritaður sig sigraðan.

18.57 Nú eru um 20 mínútur til upphafs leiks og veðrið verður að teljast ákjósanlegt til knattspyrnuiðkunar. Lítill sem enginn vindur er og lítið er um vætuna. Þá verður að minnast á góða vinnu starfsmanna Stjörnuvallar, en gervigrasvöllurinn lýtur nákvæmlega eins út og um hásumar væri að ræða. Það verður að teljast þeim til hróss.

18.44 Byrjunarlið kvöldsins hafa þá verið staðfest, svona hljóða þau:

Stjarnan: Bjarni Þórður Halldórsson (M), Tryggvi Sveinn Bjarnason, Jóhann Laxdal, Atli Jóhannsson, Daníel Laxdal, Halldór Orri Björnsson, Dennis Danry, Steinþór Freyr Þorsteinsson, Baldvin Sturluson, Hafsteinn Rúnar Helgason, Marel Jóhann Baldvinsson.

Grindavík: Óskar Pétursson (M), Ray Anthony Jónsson, Auðun Helgason, Marko Valdimar Stefánsson, Jóhann Helgason, Matthías Örn Friðriksson, Scott Ramsay, Orri Freyr Hjaltalín, Gilles Daniel Mband Ondo, Jósef Kristinn Jósefsson, Alexander Magnússon.

Dómari leiksins er Valgeir Valgeirsson og honum til halds og trausts verða Gunnar Sverrir Gunnarsson og Halldór Breiðfjörð Jóhannsson. Eftirlitsmaður hér á Stjörnuvelli er Ingi Jónsson.


18.30 Góða kvöldið. Hér mun fara fram bein textalýsing frá leik Stjörnunnar og Grindavíkur sem hefst kl. 19.15 á gervigrasinu í Garðabænum.

Þessi lið mættust einnig í fyrsta leik Íslandsmótsins í fyrra og fór sá leikur 3-1 fyrir Garðbæinga.

Árið 2007 mættust liðin í einnig upphafsumferð sumarsins, þá í 1. deildinni. Sá leikur var einnig spilaður í Garðabænum en þá fóru Grindvíkingar með sigur af hólmi, 1-3.
Það ár sigruðu Grindvíkingar 1. deildina en Stjörnumenn lentu í 9. sæti, aðeins einu stigi frá fallsæti.

Óvíst er hvort að fyrirliði Stjörnumanna, Daníel Laxdal verði í byrjunarliði dagsins þar sem hann er að jafna sig á botnlangabólgu.

Hjá Grindvíkingum verður Páll Guðmundsson líklega frá góðu gamni þar sem hann er meiddur í baki.

Scott Ramsey skrifaði undir þriggja ára samning við Grindarvíkurliðið í gærkvöldi og segist eiga nóg inni.

Gilles Daniel Mbang Ondo framherji Grindavíkur hefur verið iðinn við kolann gegn Garðbæingum, en í þremur leikjum liðanna sem hann hefur leikið, hefur hann skorað 5 mörk. Sjáum til hvort að hann haldi áfram markaskorun sinni gegn þeim bláklæddu.
banner
banner
banner