Fréttir

Knattspyrna | 29. júní 2006

Leitað í sögubókunum...

Stórsigur Keflavíkur í liði Breiðabliks var að mörgu leyti sögulegur.  Það er nefnilega ansi langt síðan Keflavíkurliðið hefur unnið jafn stóran sigur á heimavelli.  Liðið hefur ekki oft skorað svo mörg mörk í leik undanfarin ár og þegar það hefur gerst hefur það jafnvel frekar verið á útivelli.

Síðast vann Keflavík með fimm marka mun í efstu deild árið 2004.  Þá lágu Framarar 6-1 á Laugardalsvelli í síðustu umferð Landsbankadeildarinnar.  Keflavík skoraði síðast fimm mörk í heimaleik í efstu deild árið 1993 þegar Þór tapaði 5-2 á Keflavíkurvelli.  Þegar við lékum í næstefstu deild árið 2003 unnum við reyndar nokkra stóra sigra og lögðum m.a. lið HK 7-0 á heimavelli.

En til að finna fimm marka heimasigur í efstu deild þurfum við fara ein 30 ár aftur í tímann, til 15. maí 1976.  Þá mættum við FH-ingum í 1. umferð Íslandsmótsins og unnum 6-1.  Eins og fram kemur í fyrirsögn Morgunblaðsins voru gestirnir sterkari í byrjun en voru síðan yfirspilaðir af Keflavíkurliðinu.  Ólafur Júlíusson og Friðrik Ragnarson skoruðu tvö mörk í leiknum og þeir Rúnar „Bangsi“ Georgsson og Þórir Sigfússon eitt hvor.  Aðrir leikmenn Keflavíkurliðsins voru Þorsteinn Ólafsson, Lúðvík Gunnarsson, Einar Ólafsson, Einar Gunnarsson, Guðni Kjartansson, Sigurður Björgvinsson, Gísli Torfason og Þórður Karlsson.  Í frétt Morgunblaðsins er rætt við Loga Ólafsson, framherja FH-liðsins, sem minnir á að liðið geti enn náð 30 stigum í mótinu þrátt fyrir þetta tap í fyrsta leiknum.  Ekki reyndist Logi sannspár því FH lauk keppni í næstneðsta sætinu með 8 stig.  Liðið slapp við fall vegna þess að verið var að fjölga liðunum í efstu deild.  Keflavík lauk þessu tímabili í 6. sæti með 15 stig.