Hoppa yfir valmynd
24.7.2023
Ný akbraut tekin í notkun á Keflavíkurflugvelli

Ný akbraut tekin í notkun á Keflavíkurflugvelli

Ný akbraut hefur formlega verið tekin í notkun á Keflavíkurflugvelli. Akbrautin, sem hefur fengið nafnið Mike, tengir saman flughlað flugstöðvarinnar og flugbraut. Akbrautin er fyrsta viðbót Isavia við flugbrautarkerfið, en allar aðrar viðbætur voru lagðar af NATO eða Bandaríkjaher.

„Viðbót þessi við flugbrautarkerfi Keflavíkurflugvallar er stór áfangi í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og liður í að gera flugvöllinn samkeppnishæfari. Keflavíkurflugvöllur er í harðri alþjóðlegri samkeppni og við erum stöðugt að vinna að því að styrkja rekstrargrundvöll flugvallarins, bæta aðstöðuna fyrir flugfélögin og bæta upplifun farþega, “ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.

Með nýrri akbraut er öryggi flugbrautarkerfisins aukið með bættu flæði í komum og brottförum. Þetta þýðir að flugvélar munu komast fyrr af flugbrautum og fyrr inn á þær, sem eykur skilvirkni flugbrautakerfisins og hraðar afgreiðslu flugvéla. Akbrautin mun minnka biðtíma flugvéla að komast af akbraut eða komast í loftið á háannatíma og þar af leiðandi minnka kolefnisspor flugvéla á jörðu, sem er eitt af markmiðum flugvallarins.

Fyrsta flugvélin sem ók eftir Mike var Fagradalsfjall, vél af gerðinni Boeing 737-Max-8 vél frá Icelandair sem var á leiðinni frá Keflavíkurflugvelli til Oslóar.Akbrautin er engin smásmíði þar sem hún er 1200 metra löng og 35 metrar á breidd. Til samanburðar myndi malbikið duga til að malbika 35 fótboltavelli. Kostnaður við akbrautina eru tæpir 4 milljarðar króna.

Framkvæmdir við Mike hófust árið 2022 en þeim lauk í sumarbyrjun 2023.