Akureyrarvöllur lagður af en Dalsbraut áfram í skipulaginu

Akureyrarvöllur
Akureyrarvöllur
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is
BÆJARSTJÓRN Akureyrar samþykkti í gær nýtt aðalskipulag til ársins 2018, eins og umhverfisráð bæjarins hafði lagt til. Í hinu nýja aðalskipulagi er m.a. gert ráð fyrir því að íþróttaleikvangur bæjarins, Akureyrarvöllur, verði lagður af og svæðið þess í stað tekið undir íbúðir, þjónustu og verslanir. Þá er áfram gert ráð fyrir hinni umdeildu viðbót við Dalsbraut í gegnum Lundarhverfið, þótt ljóst sé að hún verði ekki lögð í næstu framtíð.

Alls bárust rúmlega 3.000 athugasemdir frá bæjarbúum frá því tillagan að aðalskipulaginu var auglýst á nýjan leik í vor þar til frestur til þess rann út síðsumars. Að sögn Jóns Inga Cesarssonar, formanns umhverfisráðs, sem ávarpaði fund bæjarstjórnar í gær, gerðu langflestir athugasemdir við það að Dalsbraut yrði áfram í aðalskipulaginu; 1.583 vildu að hún yrði felld út en hins vegar fóru 700 manns fram á að Dalsbrautin yrði sett í forgang í stað Miðhúsabrautar. Þá bárust athugasemdir frá 792 bæjarbúum sem vildu halda Akureyrarvelli þar sem hann er.

Fyrirhugaðar breytingar í miðbænum, sem mikið hafa verið ræddar undanfarin misseri, virðast falla bæjarbúum vel í geð, en bæjarstjóri upplýsti á fundinum í gær að engin athugasemd - "kannski ein" - hefði borist við aðalskipulagið vegna miðbæjarsvæðisins.

Bæjarfulltrúar sem tóku til máls í gær voru allir sammála um að aðalskipulagið væri mjög metnaðarfullt og vel unnið plagg, þó að athugasemdir væru gerðar við ákveðin atriði.

Gerður Jónsdóttir, Framsóknarflokki, lagði fram tillögu þess efnis að Akureyrarvallarsvæðið yrði áfram skipulagt sem "opið svæði til sérstakra nota", sem sagt að þar yrði áfram íþróttaleikvangur, en sú tillaga var felld með sjö atkvæðum meirihlutans gegn tveimur, Gerðar og Kristínar Sigfúsdóttur, VG. Kristín lýsti þeirri skoðun sinni að aðalskipulagið væri mjög vel unnið, og margar feykilega góðar hugmundir í því, en hún sagðist telja vallarstæði Akureyrarvallar einstakt. "Mér segir svo hugur að okkur verði ekki þakkað fyrir það að völlurinn fari," sagði hún og spurði: Erum við framsýn eða þröngsýn þegar við tökum þetta fína svæði úr notkun?

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri sagði völlinn vissulega fallegan og bæjarbúum hjartfólginn en hann væri barn síns tíma og nú yrði hann að víkja.

Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar, taldi sig hafa fengið skýr skilaboð frá bæjarbúum um að völlurinn ætti að fara. "Ég tel mig vera að vinna í þágu íbúa og íþrótta með því að völlurinn verði færður og landið notað í annað," sagði hann.

Fasteignafélagið Þyrping hf. hefur sótt um lóð fyrir verslun og þjónustu á vallarsvæðinu og vill reisa þar Hagkaupsverslun og að þar verði auk þess útivistarsvæði.

Oddur Helgi Halldórsson, L-lista, kvaðst sammála 99% þess sem stæði í aðalskipulaginu en gæti hins vegar ekki fellt sig við nokkur atriði og greiddi því atkvæði gegn því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert