KA fær keppnisvöll og Akureyrarvöllur hverfur

Akureyrarvöllur sem þarna er ofarlega fyrir miðri mynd er á …
Akureyrarvöllur sem þarna er ofarlega fyrir miðri mynd er á eftirsóttu byggingarsvæði. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

KA á Akureyri verður komið með nýjan knattspyrnuvöll með gervigrasi eftir þrjú ár, samkvæmt þriggja ára fjárhags- og framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í gær.

Akureyri.net greinir frá þessu en í samantekt netmiðilsins kemur fram að fyrir félagssvæði KA verður úthlutað 820 milljónum króna á næstu þremur árum.

Þar segir: 

Lagður verður nýr gervigrasvöllur og byggð stúka vestan við íþróttahús KA. Það verður keppnisvöllur knattspyrnuliðs félagsins. Þá verður skipt um gervigras á vellinum sunnan við KA-heimilið. Fram kom í máli bæjarfulltrúa í gær að Akureyrarvallarsvæðið við Glerárgötu væri mjög verðmætt byggingarland og mjög gott til þéttingu byggðar. Upplýst var að verðmæti byggingarlandsins væri talið á bilinu 600 milljónir til 1,9 milljarða skv. útreikningum skipulagsstjóra bæjarins.

Þar með lítur út fyrir að KA muni áfram spila heimaleiki sína á grasinu á gamla Akureyrarvellinum næstu þrjú árin, með gervigrasvöllinn á Dalvík sem varavöll á vorin og haustin. Eins má sjá á þessu að útlit er fyrir að Akureyrarvöllur hverfi eftir tímabilið 2024 sem verður 72. árið sem hann er í notkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert