Fréttir

Fimm ný fjölbýlishús við Keflavíkurvöll?
Föstudagur 21. september 2007 kl. 09:10

Fimm ný fjölbýlishús við Keflavíkurvöll?

Svo getur farið að fimm ný fjölbýlishús muni rísa við knattsyrnuvöllinn við Hringbraut, gangi hugmyndir forsvarsmanna knattspyrnudeildar Keflavíkur eftir.

Samkvæmt því sem fram kom í máli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, á bæjarstjórnarfundi í fyrradag, hefur borist erindi þessa efnis frá knattspyrnudeild Keflavíkur og stuðningsfélaginu Stafnvík ehf. sem í eru „einstaklingar og fyrirtæki sem hafa þekkingu til að byggja,“ eins og Árni orðaði það. Hafi þeir leitað til bæjarins um að byggja fimm fjölbýlishús á umræddri lóð og með því myndi hluti ágóðans af sölu íbúðanna renna til knattspyrnudeildarinnar.

Steinþór Jónsson, formaður Umhverfis- skipulagssviðs, var inntur eftir því hvort ekki væri eðlilegra að lóðin væri auglýst laus til umsóknar, eins og venjan er um úthlutun lóða. Að sögn Steinþórs eru bæjaryfirvöld jákvæð fyrir hugmyndinni en hana eigi eftir að skoða nánar með tilliti til skipulags á svæðinu og fleira.

Ekkert hafi því verið samþykkt eða ákveðið ennþá en umrædd lóð sé hluti af athafna- og umráðasvæði knattspyrnudeildarinnar.

 

Mynd: Umrætt svæði. Ljósmynd: Oddgeir Karlsson

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024