Fréttir

Schiphol fordæmi Keflavíkurvallar
Miðvikudagur 4. október 2006 kl. 15:28

Schiphol fordæmi Keflavíkurvallar

Hollenskir sérfræðingar frá ráðgjafafyrirtækinu Pricewaterhouse Cooper hafa kynnt sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum drög að tillögum um aukna nýtingu Keflavíkurflugvallar sem alþjóðlegs flugvallar.
Sveitarfélögin Reykjanesbær, Garður og Sandgerði í samvinnu við Fjárfestingarstofu Íslands réðu erlendu sérfræðingana snemma á þessu ári eða talsvert áður en tilkynnt var um brotthvarf hersins. Verkefni þeirra var og er að finna atvinnutækifæri sem tengjast alþjóðlegum flugvelli á Miðnesheiði. Sérfræðingarnir funduðu síðast í gær með bæjarstjórum sveitarfélaganna þriggja og lögðu þar fram drög að tillögum um aukna nýtingu flugvallarsvæðisins. Þær tillögur verða kynntar ráðuneytisstjórum forsætis-, iðnaðar-, fjármála- og utanríkisráðuneytis í dag.

Ekki fæst uppgefið hvað lagt er til nema að hollensku sérfræðingarnir leggja til að Íslendingar læri af atvinnuuppbyggingu Hollendinga í tengslum við Sciphol flugvöll við Amsterdam og af reynslu annarra sem hafa staðið í svipuðum sporum og Suðurnesjamenn.

Þessi vinna tengist ekki beint hlutafélaginu sem stofnað verður á næstu dögum um nýtingu varnarsvæðisins. Það mun verða undir forræði forsætisráðuneytisins. Stjórn þess verður skipuð þremur mönnum, tveimur frá ríkisvaldinu og einum frá sveitarfélögunum á Suðurnesjum. 

 

Frétt af ruv.is

 

VF-mynd: elg

 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024