Íþróttir

KR sótti þrjú stig á Keflavíkurvöll
Þriðjudagur 13. maí 2008 kl. 21:50

KR sótti þrjú stig á Keflavíkurvöll

Keflavík tók á móti bikarmeisturum KR í sínum fyrsta leik í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í kvöld og máttu heimakonur sætta sig við 2-1 ósigur. Sigurmark KR kom á 86. mínútu leiksins en Keflvíkingar höfðu varist vel allan leikinn en stíflan brast á endanum. Vesna Smiljkovic kom Keflavík í 1-0 á 41. mínútu en Hrefna Jóhannesdóttir jafnaði fyrir KR í 1-1 aðeins tveimur mínútum síðar. Það var svo Katrín Ómarsdóttir sem tryggði KR sigurinn með skallamarki á 86. mínútu.
 
Gestirnir úr Vesturbænum tóku snemma völdin á vellinum og óðu í færum. Jelena Petrovic markvörður Keflavíkur lenti snemma leiks í samstuði við sóknarmann KR en harkaði af sér og hélt áfram leik og fór á kostum í Keflavíkurmarkinu. Hurð skall nærri hælum á 16. mínútu þegar Hrefna Jóhannesdóttir vippaði yfir Jelenu en boltinn hafnaði í stöng.
 
Margsinnis voru KR-ingar nærri því að koma boltanum í netið en Keflavíkurvörnin var vel vakandi þar sem Lilja Íris Gunnarsdóttir fór fyrir varnarlínunni og þegar hún lak var Jelena að verja vel. Gegn gangi leiksins komust Keflvíkingar í 1-0 þegar Vesna Smiljkovic náði frákasti eftir skot á KR markið og sendi boltann í netið og staðan 1-0 fyrir Keflavík.
 
Adam var ekki lengi í Paradís því KR jafnaði metin aðeins tveimur mínútum eftir Keflavíkurmarkið og þar var Hrefna Huld Jóhannesdóttir að verki en hún náði til boltans eftir fyrirgjöf af hægri kantinum. Vörn Keflavíkur hefði getað staðið sig betur í að bægja hættunni frá en Hrefna gerði vel að ná til boltans. Liðin héldu til hálfleiks í stöðunni 1-1 og máttu Keflvíkingar þakka fyrir að mörk KR voru ekki fleiri.
 
Í síðari hálfleik minnkaði munurinn á liðunum og Keflvíkingum tókst að byggja upp nokkrar góðar sóknir en KR var oftar en ekki skrefinu á undan. Þolinmæði KR-inga borgaði sig því á 86. mínútu leiksins var það Katrín Ómarsdóttir sem innsiglaði sigur KR með skallamarki eftir hornspyrnu.
 
Bikarmeistarar KR hirtu því öll þrjú stigin sem í boði voru á Keflavíkurvelli í kvöld en máttu prísa sig sælar með það. Ljóst er að Keflvíkingar geta vel blandað sér í toppbaráttuna í sumar en eru vissulega sýnd veiði en fjarri því gefin.
 
Byrjunarlið Keflavíkur í leiknum:
Jelena Petrovic, markvörður, Inga Lár Jónsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir, Elísabet Ester Sævarsdóttir, Guðný Petrína Þórðardóttir, Lilja Íris Gunnarsdóttir, Danka Padovac, Vesna Smiljkovic, Guðrún Ólöf Olsen, Linda Rós Þorláksdóttir og Björg Magnea Ólafsdóttir.
 
Byrjunarlið KR í leiknum:
María Björg Ágústsdóttir, markvörður, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Edda Garðarsdóttir, Fjóla Dröfn Friðriksdóttir, Lilja Dögg Valþórsdóttir, Hrefna Huld Jóhannesdóttir, Embla Sigríður Grétarsdóttir, Ólöf Gerður Jónsdóttir Ísberg, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir.
 
VF-Mynd/ [email protected]  Björg Ásta Þórðardóttir í baráttunni á Keflavíkurvelli í kvöld.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024