Íslenski boltinn

Ekki uppselt á Stjörnuvöllinn - forsala í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá leik á Stjörnuvellinum í sumar.
Frá leik á Stjörnuvellinum í sumar.

Ekki er enn orðið uppselt á leik Stjörnunnar og Breiðabliks sem fer fram á morgun en þá geta Blikar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Almar Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar, segir að þeim miðum sem stuðningsmönnum Breiðabliks var úthlutað í stúku séu uppseldir. Stuðningsmenn Stjörnunnar geta þó enn keypt miða í stúku.

Forsala hófst í Stjörnuheimilinu í gær og heldur áfram í dag frá klukkan 15.30 til 19.00.

„Það eru um 2000 miðar í umferð en eitthvað er fyrir boðsgesti eins og gengur og gerist. Svo verður líka að reikna með börnum og öðrum áhorfendum sem ekki borga sig inn," segir Almar sem á því von á að áhorfendafjöldi verði á þriðja þúsund.

Hann segir líklegt að uppselt verði á leikinn og hvetur því alla áhugasama um að verða sér út um miða tímanlega. Enn eru lausir miðar í stæði sem verður komið fyrir á trépöllum gegnt stúkunni.

Ef svo vill til að ekki verði uppselt Stjörnumeginn í stúkunni kemur til greina að selja stuðningsmönnum Breiðabliks þá miða, að sögn Almars.

„Það hefur þó verið markviss sala til Stjörnumanna og úthlutun til þeirra mun eiga sér stað í kvöld og í fyrramálið. Ég tel það ólíklegt að þeir miðar seljist ekki upp."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×