Óþolandi framkoma!

Akureyrarvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.
Akureyrarvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.

Innanstokksmunir á Akureyrarvelli hafa orðið fyrir barðinu af reiðum knattspyrnumönnum í tvígang á stuttum tíma þar sem skemmdir hafa verið unnar. Fyrra atvikið átti sér stað sl. laugardag í leik KA og Fylkis í 2. flokki karla en leikmaður Fylkis fékk rautt spjald á leiknum og lét reiðina bitna á rúðu sem mölbrotnaði. Seinna atvikið var í bikarleik KA og Grindavíkur í meistarflokki karla. Samkvæmt heimildum Vikudags skellti fyrirliði Grindavíkurliðsins hurðinni að búningsklefanum í reiðiskasti í hálfleik, með þeim afleiðingum að skemmdir urðu á púsningu á veggnum.

Óskar Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA, segir að nú sé mælirinn fullur. „Það er algjörlega óþolandi að knattspyrnumenn skuli láta reiði sína bitna á eigum annarra og við líðum þetta ekki lengur. Það þarf viðhorfsbreytingu hjá knattspyrnumönnum,“ segir Óskar. Hann segist hafa sent framkvæmdastjóra KSÍ bréf eftir seinna atvikið þar sem KA-menn hafi fengið nóg.

„Ég var sáttur við hans svör og hann talaði um að fleiri félög væru búinn að kvarta yfir þessu. Þetta virðist því vera viðvarandi vandamál víðast hvar. Ég tek það hins vegar fram að leikmaðurinn hjá Fylki baðst innilega afsökunar á sínum gjörðum og var miður sín. Þjálfari liðsins líka. Ég hef hins vegar ekkert heyrt frá neinum í sambandi við seinna tilvikið,“ segir Óskar. Hann segir að reikningur vegna skemmdana verði sendur á viðkomandi félög. Það séu hins vegar ekki peningarnir sem séu aðalmálið.

 „Menn verða bara að fara haga sér almennilega og bera virðingum fyrir annarra manna hlutum. Þetta snýst fyrst og fremst um það.“


Athugasemdir

Nýjast